Málefni

Hér mun ég taka saman hugleiðingar mínar um stjórnarskránna og einstaka greinar hennar.

Jafnt atkvæðavægi
Mér finnst það vera lágmarks krafa í öllum réttarríkjum að allir kosningabærir menn hafi jafn mikið um það að segja hverjir stýra landinu. Jöfnu atkvæðavægi tel ég að best sé að ná með því að gera Ísland að einu kjördæmi. Í síðustu kosningum voru 227.843 á kjörskrá og þar af kusu 193.975 eða 85,1%. Þetta eru það fáir kjósendur að það er engin ástæða fyrir okkur að skipta Íslandi niður í kjördæmi.

Önnur Störf æðstu embættismanna
Í 9. grein stjórnarskrárinnar segir að forseti megi ekki gegna öðrum störfum, hvorki opinberum né óopinberum. Mér finnst þetta góð grein en eiga að vera almennari og taka til fleiri embætta. Hún gæti þá hljóðað eitthvað á þessa leið. Forseti lýðveldisins, Ráðherrar, Þingmenn og Hæstaréttardómurum er óheimilt að gegna öðrum störfum , hvorki launuðum né ólaunuðu, á meðan þeir gegna embætti.

Þetta gerir það að verkum að Ráðherrar geta ekki að auki gegnt starfi Alþingismanns og þarf þess vegna ekki að banna sérstaklega.

Málskotsréttur til þjóðarinnar
Það er nauðsynlegt að hafa möguleika í stjórnarskránni á því að leggja mál undir dóm þjóðarinnar. Það er bara spurning hversu stórann hóp þurfi til og hvernig hann er skilgreindur. Ætti það að vera 30, 40 eða 50 þúsund kjósendur eða 15 – 20% af kosningabærum einstaklingum. Fjöldinn má ekki vera of lítill þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur verði daglegt brauð, heldur má fjöldinn ekki vera það mikill að það sé nánast ómögulegt að fá mál sett í dóm þjóðarinnar.   Mér finnst að það eigi að þurfa undirskrift 30 þúsund einstakling með kosningarétt til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðið málefni.  Framkvæmdin yrði síðan sett í lög.

Grundvallar réttindi
Í stjórnarskránni eru ákveðin grundvallar réttindi allra manna sem að mínu mati eru algildar og óbreytanlegar og eiga þar leiðandi að vera í upphafi stjórnaskrárinnar. Þessar reglur eru í dag í greinum 65 til 77 og fjalla meðal annars um að allir menn skulu vera jafnir fyrir lögum, tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs, eignarétt og önnur mannréttindi sem okkur finnst í dag vera sjálfsögð. Þessar greinar eiga að vera í fyrsta kafla sem gæti heitið Grundvallarréttindi.

Stjórnlagaþingið
Niðurstöður þjóðfundar eru meginsjónarmið og áherslur þjóðarinnar um stjórnarskrána og breytingum á henni. Þess vegna er mikilvægt að ganga til stjórnlagaþings með opinn huga og vera tilbúinn að hlusta, beita skynsemi og dómgreind í því verkefni að búa til stjórnarskrá sem kemur til með að leggja grunninn að nýju, sanngjörnu og betra Íslandi.

Einföld og auðskilin stjórnarskrá.
Það er mín skoðun að stjórnarskráin á að vera einföld og auðskilin.  Í 65 gr. stjórnarskrárinnar  segir „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leiti.“ Að mínu mati á þessi grein að vera „ Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til stöðu“.  Aðstæður fólks eru mjög misjafnar og tel ég ekki rétt að taka nokkur dæmi út úr og gefa því sérstakt vægi. 

Ein af spurningum sem DV óskaði eftir að frambjóðendur svöruðu er „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að tryggja jafnrétti óháð kynhneigð í stjórnarskrá?“   Þessi spurning er mjög gild ef við skoðum stjórnarskránna eins og hún er í dag enda vilja væntanlega allir sem á einhvern hátt telja sig eiga í vök að verjast að sín aðstaða sé getið sérstaklega í stjórnarskránni.

Fyrir utan kynhneigð þá eru einnig aðstæður eins og fötlun, sjúkdómar, holdafar, tungumál, heimaland, stjórnmálaskoðanir og margt fleira.  Að mínu viti eiga þessar aðstæður fólks ekki að vera settar skör lægra með því að hafa þær ekki með í upptalningu.  Þess vegna er betra að sleppa upptalningunni því hún getur aldrei verið endaleg.

Share and Enjoy:
  • Print
  • Digg
  • Sphinn
  • del.icio.us
  • Facebook
  • Mixx
  • Google Bookmarks
  • Blogplay

Skildu eftir skilaboð